top of page

Um mig - viðtal í Vikunni

Updated: Mar 20

Fullt nafn og starf: Guðrún Birna le Sage de Fontenay markþjálfi, ropeyoga- og glómotion heilræktarkennari í Ropeyogasetrinu. Ég tek líka viðtöl við Fyrirmyndir & skapara í samnefndum þáttum á síðunni www.ahamoment.is. Þar fjalla ég um uppeldi, jóga og sjálfsrækt og allt sem vekur og fær mann til að endurhugsa viðhorf sitt.


Hvaðan kemur eftirnafnið?

Það kemur úr móðurfjölskyldu minni. Langafi minn kom hingað frá Danmörku á hernámsárunum, sem danskur sendiherra og giftist langömmu minni. Hann var ættaður af frönskum hugenottum sem flúðu ofsóknir kaþólsku kirkjunnar á 17. öld, frá Frakklandi til Danmerkur, þar sem þeir stofnuðu mótmælendakirkju og settust að. Upprunalega hét ættin le Sage en það nafn var lagt niður á flótta og dulnefnið de Fontenay var tekið upp til að villa um fyrir. Við komuna til Danmerkur var sanna nafnið tekið upp á ný og hinu splæst aftan við. Ættin hlaut töluverða upphefð í Danmörku og le Sage de Fontenay er í danska aðlinum eftir langa línu af sjóliðsforingjum og hefðarfólki. Það er skondið að fyrir utan franska nafnið þá hef ég enga tengingu við Frakkland og kann litla sem enga frönsku.


Æskan

Það má segja að ég sé svona blanda af borgarbarni og sveitastelpu. Ég er fædd og uppalin í Efra Breiðholti en á sterkar rætur í sveit, foreldrar mínir eru bæði fædd og uppalin á sveitabæjum á suðurlandi og var ég því nánast hverja helgi og öll sumur í sveitinni hjá ömmum mínum og öfum. Eitt það dýrmætasta sem ég tek úr æsku minni er sú djúpa tenging við náttúru og dýr sem ég fékk frá veru minni í sveitinni, ásamt mikilli samveru fjölskyldunnar. Ég er líka alin upp við mikla ást og hlýju og foreldrar mínir lögðu mikið uppúr því að tala við mig á jafningjagrundvelli og hlusta þegar ég talaði. Það er eitthvað sem ég tek með mér í uppeldi dætra minna. Ég er alþýðustelpan sem ólst upp við fjárhagskrögg í 111 Reykjavík, flutti svo í Setbergið, Hollywood hæðir Hafnarfjarðar í 10. bekk og fór þaðan í Verzló til að leika og syngja. Fimleikar, söngur og leikur áttu hug minn allan sem barn – ásamt systkynum mínum sem ég ann mjög heitt og passaði vel uppá. Ég var mjög opin sem barn en lærði svo að vera Pollý-Anna sem kunni að hlýða, vera stillt og góð og standa mina plikt.



Bakgrunnur, menntun og fyrri störf?

Eftir Verzló fór ég að kenna í Kársensskóla í Kópavogi, kenndi þar íþróttir og seinna í stöðu umsjónakennara hjá 8. bekk og kenndi einnig nokkur bókleg fög. Það er skondinn veruleiki að 19 ára stelpa nýskriðin úr menntaskóla gangi inní starf kennara en þá sem nú hverfa kennarar frá, í önnur betur launuð störf, í góðæri og þá vantar kennara. En ég var vön því að vinna með börnum úr fimleikaþjálfun og þetta var dýrmæt reynsla fyrir mig. Það voru kostir og gallar við það að vera ekki nema 5 árum eldri en elstu nemendurnir, ég náði held ég til þeirra, svona á jafningjagrundvelli og vann þannig frekar traust þeirra sem þurftu á því að halda, en mig að sjálfsögðu skorti reynslu af efninu og vigt gagnvart foreldrunum. Ég fór svo að læra félagsráðgjöf í HÍ og það nám snart mig djúpt bæði fræðilega og persónulega. Nálgunin að mæta fólki að virðingu þar sem það er statt, beita minnsta mögulega inngripi og hjálpa fólki til sjálfshjálpar er eitthvað sem ég hef að leiðarljósi í vinnu minni í dag. Námið sló líka á tilfinningalegan streng hjá mér þar sem við lærðum um ofbeldi, meðvirkni og alkahólisma í fjölskyldum… sem var eitthvað sem ég tengdi við þar sem pabbi minn var virkur alkahólisti þangað til hann snéri við blaðinu fyrir 10 árum síðan. En pólitíkin lokkaði mig útaf brautinni og ég færði mig yfir í lögfræði, ég ætlaði að flétta saman lögfræði og félagsráðgjöf, fara inní stjórnkerfið og breyta heiminum til hins betra. Ég var í nokkur ár virk í Ungum jafnaðarmönnum og Samfylkingunni en fékk uppí kok eftir að hafa verið formaður þegar hrunið kom, upplifað stólaskipti og sviptingar í kringum Ólaf F í borginni, svo hrun, icesave, ríkisstjórninni steypt af stóli og tvennar kosningar. Ég tók mér pásu frá lögfræðinni eftir að hafa farið illa út úr hruninu og íbúðarkaupum og hafði þá óvænt rými til að hoppa inní dagskrárgerðarstarf hjá Rúv og var að framleiða Stundina okkar í 3 ár. Þetta var í raun gamall æskudraumur, að vinna í sjónvarpi, mig hafði dreymt um að stýra þætti eins og Fólk með Sirrý, taka viðtöl eins og Sigmundur Ernir eða lesa fréttir eins og Edda Andrésar.

En ég hætti eiginlega sökum þess að ég var nánast korter í kulnun, var að sligast undan hrunskuldum og var að vinna yfir 200% starf á þessum tíma, á rúv, og svo að sjá um bókhald fyrir fyrirtæki, var í hljómsveit, að takast á við veikindi í fjölskyldu og erfiðan skilnað foreldra. Ég hætti því á rúv án þess að hafa reynt almennilega við þennan æskudraum, að vera spyrill og miðla, fjalla um og lyfta upp öllu því góða í samfélaginu okkar. En eftir stóð bókhaldið, sem var ágætlega launað starf sem krafðist ekki mikils af mér, sem var eitthvað sem ég verulega þurfti á að halda til að ná andlegu og líkamlegu jafnvægi á ný eftir að hafa gengið á mig með ofurálagi. Svo ílengdist ég í því starfi enda hentaði þetta sveigjanlega starf vel eftir að ég fann ástina í lífi mínu og raðaði niður tveimur börnum bak í bak og gerði upp íbúð og hús með unnusta mínum.

En hugsjónamanneskjan sem hafði alla tíð valið sér starf með tilgang og göfugt markmið í huga - þjálfun, kennslu, umönnun, félagsstörf, fangavörslu, vinnu með fólki með fötlun og almennt eitthvað sem snertir á mennskunni og samskiptum - var orðin vægast sagt eirðarlaus í bókhaldsstarfi, þrátt fyrir annir í einkalífinu.


Segðu okkur endilega frá nýjasta verkefninu þínu? Ég var einmitt að byrja á nýju og spennandi verkefni með Guðna í Ropeyogasetrinu Hann var að snara hinu sívinsæla námskeiði sínu Máttur athyglinnar yfir á vefinn og ég verð stjórnandi í stóru vefsamfélagi sem tengist því. Við förum live 1x í viku og fleira skemmtilegt til að ýta undir lífleg skoðunarskipti á þessu mannbætandi námskeiði sem gerði stórkostlega hluti fyrir mig sjálfa á sínum tíma.


Andlega hliðin, hversu mikilvægt er að rækta hana? Fyrir mig persónulega þá er andlegur vöxtur mitt stærsta verkefni í lífinu og ég held að heimsbyggðin sé að fatta það betur og betur að það er ekki hægt að slíta sundur andlega og líkamlega heilsu. Hér áður fyrr þýddi það að sinna heilsunni að fara í ræktina helst á hverjum degi og sleppa fitu en þrátt fyrir að fylgja þessum leiðbeiningum þá er stór hluti af þjóðinni í þroti eða nálægt því. Við búum líka í hröðu samfélagi þar sem hugurinn er sívirkur og upptekinn og því margir sem eiga erfitt með að kyrra hugann og hvíla í núinu – vera. Þá er auðvelt að festast í fjarveru, þráhyggju, ósjálfráðum hugsunum og sársauka. Ef við viljum vera í jafnvægi og valda okkur, þá verðum við að þjálfa mótvægið við fjarveru – veru.


Hvað gerði það fyrir þig persónulega og hver er sagan á bak við það?

Ég hef í rauninni verið andlega þenkjandi og leitandi frá því ég man eftir mér og í raun má segja:

að dulbúna gæfan mín hafi verið að alast upp við alkahólisma og gera mér þess vegna snemma grein fyrir því að ég kem út í lífið með skökk viðhorf. Það opnaði mig fyrir því að leita mér hjálpar og leita lausna, líta inná við og rækta andann og geðið.

En þetta var löng leið því ég vissi ekki hvert ég ætti að leita og hef því prófað ótal margt. Ég var strax sem barn mjög áhugasöm um öll trúarbrögð, stjörnuspeki og dulspeki. Svo fór ég að lesa mér til um alkahólisma og meðvirkni á unglingsárunum, tók þann leiðarvísi og fór að leika ómeðvirka manneskju – sem gerði mig enn meðvirkari en áður. Síðan fór ég að grúska og læra sálfræði, félagsfræði og félagsráðgjöf. Las fjölmargar sjálfshálparbækur og fór þaðan í spiritisma og núvitund. Lærði hugleiðslu úr ýmsum áttum og fór að stunda yoga. Fór í 12 spora samtök, lærði markþjálfun, hitti ráðgjafa, sálfræðinga, geðlækna og svo gæti ég lengi talið.



En eftir alla þessa leit þá rambaði ég á Gló motion heilræktarkennaranámið hjá Guðna í Ropeyogasetrinu. En Guðna tekst í heimspeki sinni og bókum að flétta saman gamla og nýja speki og töfra hana fram með djúpum skilningi á íslenskri tungu og mætti orðanna. Þetta sameinar og rifjar upp allt það besta sem ég hef lært og uppgötvað hingað til en umturnar á sama tíma öllu með nýrri auðskilinni nálgun. Skrefunum 7 til velsældar. Hjá Guðna lærði ég að vilja mig til fulls, nákvæmlega eins og ég er núna – hætta að hafna mér og vera þess í stað þakklát þegar ég gríp mig í sjálfsniðurrifi eða gagnrýni á aðra, þakka fyrir að sjá mig – því þá hef ég tækifæri til að beina athygli minni annað – velja mér viðhorf – velja hvert ég stefni og hvað ég rækta í mér. Það er svo merkilegt hvað við getum eytt mikilli orku í að skamma, stjórna og sparka í okkur liggjandi í stað þess að rétta okkur hjálparhönd – vera okkar besti vinur, sýna okkur kærleika og umhyggju. Þegar maður elskar sig nákvæmlega eins og maður er núna, þá heilar maður fortíð sína og hættir að hafa áhyggur af framtíðinni, því maður er fullkominn = kominn til fulls í þetta augnablik.


Hvað er það erfiðasta sem þú hefur gengið í gegnum í lífinu? Vá hvað það er áhugavert að fá þessa spurningu, það er nefnilega svo merkilegt að þegar maður sannarlega vill sig, nákvæmlega eins og maður er þá verður maður svo þakklátur fyrir það sem hefur komið manni hingað, gert mann að þeirri manneskju sem maður er í dag. Nú lít ég á allt lífið, öll tímabilin, mótbyr og meðbyr með nýjum augum. Straumurinn er farinn af sögunni og ég er frjáls og þakklát hér og nú. Ég er svo sammála því sem Alda Karen segir, sum tímabil eru til að læra af og önnur til að njóta.

En ef ég horfi yfir farinn veg þá fann ég fyrir mestum sársauka þegar ég var að stíga útúr æskunni og inní sjálfráða árin og nú væri ég loks frjáls til að gera mitt á minn hátt, en ég var með skökk viðhorf, litla sjálfsvirðingu, kunni ekki að gera hluti fyrir mig, kunni ekki að sinna þörfum mínum og löngunum og kunni hvorki að setja sjálfum mér né öðrum mörk, með fullkomnunaráráttu og allt eða ekkert hugsunarhátt, uppfull af skömm yfir því að vera ekki betri en ég var – ég var aldrei nóg að mínu mati. Eins og er svo dæmigert fyrir uppkomið alkabarn. En líka dæmigert fyrir marga af minni kynslóð, þar sem stelpum var kennt að vera hlýðnar og góðar, svara skipunum og væntingum og það var ausið yfir þær hrós fyrir að gera það sem þeim var sagt. Svo kemurðu útí lífið átt að vita hvað þú vilt sjálf? Alltíeinu áttu að vera í tengslum við þig, óháð kröfum annarra til þín og svo viltu halda áfram að standa þig í öllu uppá 10... en lífið er kannski orðið flóknara og áhugasviðið orðið stærra og reiknisdæmið gengur hreinlega ekki upp.

Á þessum tíma var ég föst í þráhyggju hugans, var í stanslausu sjálfsniðurrifi og upplifði mikinn kvíða og þunglyndi. Það var hreinlega ósjálfráður kækur að sparka í mig liggjandi og hafna mér öllum stundum. Á sama tíma var ég að hætta í fimleikum og hafði ekki þá líkamlegu og andlegu útrás sem íþróttir og hreyfing eru. Ég var samt að leita mér hjálpar, var hjá sálfræðingi, lærði hugræna atferlismeðferð og fleiri tól – en það var bara ekki nóg, það vantaði þessa allsherjar hugarfarsbreytingu að vilja sig og beina athyglinni að því sem ég vildi í stað þess að stara á það sem ég vildi ekki. Því lögmál lögmálanna, orsök og afleiðing virkar þannig að það sem þú veitir athylgi vex og dafnar. Í dag vel ég að telja blessanir en ekki böl.

Segðu endilega frá þáttunum þínum á Ahamóment:

Ég tek viðtöl við fyrirmyndir og skapara, fólk sem veitir mér innblástur, lætur drauma sína rætast og er örlátt á orkuna sína – gefur af sér til okkar hinna. Mig langar að lyfta því góða sem ég sé útum allt, það er svo mikil gróska og gerjun í samfélaginu okkar í dag og mér finnst hefðbundnir fjölmiðlar oft setja of mikið púður í að finna það neikvæða. Margir fjölmiðlar eru líka karlægir sem sýnir sig best á því að 70% viðmælenda á ljósvakamiðlum í dag eru karlar. Ég gaf mér því leyfi til að láta áhugann ráða för og hafa ekki áhyggjur af því þó það halli á karlpeninginn. En ég hef tekið viðtöl við 9 konur og 1 karl enn sem komið er. Kvenkyns viðmælendur eru líka á hverju strái og eru líkt og óplægður akur, ég sé mörghundruð konur að gera frábæra hluti, sem hafa ekki hlotið sérstaka hylli hefðbundinna fjölmiðla. Á meðan karlkyns viðmælendur eru oft ofnotaðir og þeirra sýn hefur komið fram áður.


Hvernig komu þeir til og hvaða konur hefur þú fengið í viðtal?

Á meðan ég sat og færði bókhald og dreymdi um allt hitt sem mig langaði að vera að gera þá var einn af draumunum að fara aftur að vinna í sjónvarpi eða skrifa á fjölmiðli. Fjalla um mennskuna á einhvern hátt. Svo byrjaði ég í kennaranáminu hjá Guðna, sem var líka gamall draumur en ég hafði verið að kynna mér yoga frá því ég var unglingur í fimleikunum. Svo kom að því að byrja að gera þetta „allt hitt“ og ég vissi ekki í hvort fótinn ég átti að stíg, satt best að segja þá voru hugmyndirnar miklu, miklu fleiri. Ég tók markþjálfann á sjálfa mig og gerði fleiri, fleiri æfingara til að grisja, flokka og finna þetta eina rétta. Fyrir hugmyndamaskínu eins og mig þá er það kannski of mikið torf svo ég lagði allt niður og byrjaði bara, datt niður á nafnið ahamoment sem mér fannst nógu vítt til að geta í raun tekið þetta í hvaða átt sem er.

Málið er að skýrleiki kemur ekki með því að hugsa hlutina í spað, skýrleiki kemur með framkvæmd og það var akkúrat það sem ég upplifði. Með hverju skrefi kom skrýleiki og með hverju skrefi fann ég aukna orku og drifkraft.

Á þessum tíma var ég með eins og möntru í huganum orðatiltæki frá Guðna, hvort ertu viljandi skapari í vitund eða óviljandi viljandi slys. Mig langaði að stíga inní lífið viljandi og skapa mig og skapa eitthvað - gefa af mér. Til þess þurfti ég fyrirmyndir og viðmælendur mínir eru í raun það fólk sem ég var að horfa til, fyrirmyndir sem voru komnar af stað, farnar að valda sér og lifa sinn draum. Mig langaði að hitta þær og heyra hvað þær gerðu, hvað drifi þær áfram og hvaða vendipunktar gerði þær að þeim manneskjum sem þær eru í dag. Ég er svo þakklát fyrir hverja og eina manneskju sem hefur komið til mín, þær hafa kennt mér svo margt.


Að fara á námskeið hjá Dísu Dalberg var eitt að mínum fyrstu framkvæmdar-skrefum og að fylgjast með henni sigrast á eigin fullkomnunaráráttu með því að fara í beina útsendingu á facebook síðu sinni á hverjum virkum degi í þáttunum hennar „Follow your heart not the heard“ hjálpaði mér að yfirstíga mína fullkomnunaráráttu og enn þann dag í dag er mottó hjá mér að liggja ekki yfir hlutunum heldur bara láta vaða. Það sem skiptir máli er framganga og framfarir, að taka skref, en ekki fullkomnun – að taka þátt í lífinu í stað þess að vera föst í hausnum.

Næst var það vinkona mín og mikil fyrirmynd Sjöfn Kristjánsdóttir sem ásamt unnusta sínum stofnaði prjónauppskriftaveldið Stroff - Petit knitting. Sagan hennar er algjör Öskubuskusaga en hún fékk hugmynd, um að kannski gæti hún fengið smá aukapening uppí leigu með því að sinna ástríðunni í hjáverkjum, sem var að prjóna og skapa nýjar flíkur. Á mettíma er þetta orðið stöndugt sívaxandi fyrirtæki þar sem þau vinna bæði fulla vinnu og veita öðrum atvinnu.

Svo var það hin dásamlega Svana söngkona, Svanlaug Jóhannsdóttir. Hvílík orka og ástríða í einni manneskju. Svo voru það söngfuglarnir Lára Rúnarsdóttir og Tinna Sverrisdóttir í Andagift - súkkulaðisetur. Alda Karen með alla lífslyklana sína – vá hvað ég hef lært mikið af henni! Ég mæli með glósubók þegar þið horfið á þáttinn með henni og drekkið í ykkur visku hennar og reynslu. Næst var það svo nýji Eddu hafinn, Andrea Eyland, höfundur Kviknar og þáttanna Líf Kviknar svo Sabína Steinnunn Halldórsdóttir sem heldur úti síðunni Færni til framtíðar þar sem hún hvetur til útiveru með börnum. Síðan eru það hinn margumtalaði Guðni, fyrirmyndi mín og mentor síðasta eina og hálfa árið og í síðustu viku frumsýndi ég nýtt viðtal við Kristborgu Bóel, höfund bókarinnar 261 dagur og fjölmiðlakonu sem hlustar á innsæið og lætur vaða.

Það væri hreinlega efni í heilan fyrirlestur, hvað ég hef lært af hverri og einni fyrirmynd og það að kynna mér það efni sem er til um viðkomandi og liggja svo yfir viðtalinu sjálfu í klippivinnunni – þá kem ég útúr því ferli vel marineruð í visku þeirra og reynslu.


Hvað veitir þér innblástur og kraft? Að vera ég og gera mig ”do you! og gefa af mér og að sjá aðra gera slíkt hið sama. Vera í tengingu við mig og fólkið mitt… og vaxa.


Þú aðhyllist RIE-uppeldisaðferðina, ekki satt?

Jú svo sannarlega, jiii ég er búin að blaðra og blaðara og hef ekki minnst einu orði á RIE. Ég væri til í að skrifa heila bók um það hvað ég er hrifin af þessari nálgun og aðeins stærri regnhlíf, Conscious Parenting eða meðvitað, virðingarríkt uppeld.


Segðu okkur aðeins frá fjölskylduhögum þínum og hvernig það kom til að þú ákvaðst að nota þá aðferð við uppeldið:

Ég og unnusti minn, Áki Hermann Barkarson eigum tvær dásamlegar stelpur sem verða 4gura og 6 ára í sumar, Lísbeti Lóu og Sigríði Sjönu. Það er nú bara þannig að við það að finna Áka og eignast þessar tvær stelpur þá er stærsta draumi lífs míns landað. Þegar ég var lítil stelpa þá sagðist ég ætla að verða ung mamma ef einhver spurði mig hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór, ekki félagsráðgjafi eða stjórnmálakona. Ég var því mjög tilbúin að verða móðir og eftir að ég varð ólétt þá sökkti ég mér í lestur um allt sem snéri að meðgöngu, fæðingu, sængurlegu og uppeldi. Ég var ekki búin að sirka út RIE þá en rambaði eflaust á skylt efni og tileinkaði mér. Það er margt í þessari uppeldisnálgun sem passar við það sem ég þekkti frá mínu eigin uppeldi, mamma er hlýjasta manneskja sem ég þekkti og gaf okkur systkynunum ómælda ást, hlýju, ró og yfirvegun. Foreldrar mínir eru mér fyrirmynd á svo margan hátt, þó óhamingja þeirra hafi oft á tíðum smitað yfir til okkar systkynanna.

Ég var því nokkuð örugg í þessu nýja hlutverki en svo kom að því að ég varð ólétt af yngri dóttur minni og átti mjög strangan vetur með 1 árs uppá arminn, í markþjálfunarnámi og fullri vinnu á meðan Áki varði hverri vökustund í að vinna og gera upp húsið sem við búum í í dag. Lísbet Lóa kom svo í heiminn gargandi veik af vangreindu bakflæði, leikskólaplássið hennar Sigríðar Sjönu klikkaði og hún var heima fyrstu 3 mánuðina, hún skildi ekkert hvað þetta litla grátandi barn var að gera þarna og var lítið farin að tjá sig. Svo þetta tók á. Við vorum nýflutt inn í hálfklárað hús með allt spennt í botn. Það var því mjög skýr verkaskipting og ég svaf ekki í hálft ár og átti mjög erfitt með að geta ekki sinnt Sigríði Sjönu 100% prósent eins og ég hafði áður gert.

Hún átti greinilega erfitt með þetta nýja hlutskipti sem kom fram í gráti uppúr svefni og martröðum ef hún fékk ekki nægan einkatíma með foreldrunum. Hjartað mitt hreinlega brotnaði í tvennt.

Þá sökkti ég mér aftur í gúgl og kynnist RIE og fljótlega stofnar Kristín Maríella Mæðra tips! og síðar stóra RIE hópinn á facebook. Þá var ekki aftur snúið, þessi ómetanlegu tól til að takast á við tilfinningar tengdar systkynasambandinu og ráð um að hlúa að mér og sýna mér meiri mildi, komu á hárréttu augnabliki inní líf mitt.

Svona er þetta með dulbúna gæfu, þegar á reynir og á móti blæs og maður fattar að maður er kannski ekki með öll svörin, þá réttir maður út höndina, leitar að hjálp og fyrir manni opnast nýr heimur.

Síðan þá hefur þessi nálgun í uppeldi, Gló motion heimsspekin og sjálfsrækt átt hug minn allan og úr því sprettur í raun ahamóment. Á námskeiðum mínum í Ropeyogasetrinu – Meðvitaðar mæður og Meðvitaðir foreldrar flétta ég saman þessa þrjá þræði og skapa heildarmynd sem mig langar að miðla enn frekar á fleiri námskeiðum sem ég er með í smíðum.

Það er svo mikil dýpt í þessum fræðum og miklar pælingar um mannlegt eðli að þau hafa átt stóran þátt í því að mér hefur tekist að heila mína eigin barnæsku, gömlu sár og skekkjur.

Ég mæli innilega með þessari nálgun í uppeldi og starfi okkar Meðvitaðra foreldra sem er félag sem við nokkrir foreldrar stofnuðum til að halda utan um mánaðarlegt fræðsluþema, foreldramorgna og -kvöld, podcast, bókaklúbb og pop-up ævintýraleikvelli.


Hvernig finnst þér að samtvinna uppeldi og starfsframa?

Ég var svo lánsöm að vera í mjög sveigjanlegu starfi þegar ég átti mínar stelpur og maðurinn minn líka. Við fengum ekki dagmömmu nema með 6 tíma pláss svo ég minnkaði við mig vinnu í takt við það. Eftir á að hyggja þá finnst mér það mikil blessun að hafa ekki verið með þær í lengri vistun. En þegar ég fór að vinna minna þá fór maðurinn minn að vinna meira og það ýkir upp alla verkaskiptingu á heimilinu og setur hlutina úr jafnvægi. Það er að sjálfsögðu allt í góðu lagi í einhvern tíma, en þeim mun lengur sem svona tímabil vara þeim mun meira átak þarf til að púsla því aftur saman.

Fyrir mér er tími saman og tími með fjölskyldu hið sanna ríkidæmi og það er stór þáttur í því að ég er að skapa mér sjálfstæða atvinnu. Til að geta unnið á mínum tíma og í takti við lífið. Það eru mikil forréttindi.

Ég hreinlega veit ekki hvernig foreldrar, báðir í fullum vinnum með fulla viðveru gera þetta!? Ömmu og afahagkerfið heldur mörgum fjölskyldum á floti og ég væri ekki hér í dag ef ég ætti ekki bestu mömmu í heimi sem hleypur undir bagga þegar þarf. En þarf þetta að vera svona?

Mér finnst við verða að lengja fæðingarorlof til að gera foreldrum kleift að vera meira heima með börnunum sínum fyrstu árin, líka að foreldrar geti haft meiri sveigjanleika og tekið það út yfir lengra tímabil svo fæðingarorlof geti jafnvel dekkað ef veikindadagar fara yfir leyfilegan fjölda eða eitthvað kemur uppá. Ég held að fyrirkomulagið eins og það er í dag setji líka mikið álag á fyrirtækin í landinu.


Eftir að ég eignaðist börn þá fann ég líka mjög sterkt fyrir því hvað það skiptir miklu máli að starfa við eitthvað sem þú brennur fyrir. Það er ekki sami tími til að sinna áhugamálum, félagslífi eða sjálfum sér og þá er þeim mun mikilvægara að njóta sín og hafa áhuga á vinnunni. Ég held ég sé líka betri starfskraftur og með betri framleiðni eftir barneignir. Maður er ekki að slóra þegar maður er í burtu frá börnunum sínum og nýtir vinnutímann vel.

Hvað er á dagskrá hjá þér í nánustu framtíð?

Að setja fleiri námskeið í loftið í Ropeyogasetrinu og fyrirlestra, að fara með fyrirlestur um virðingu og mörk í samskiptum inná leikskóla, taka þátt í Heilandi dögum á Húsavík 25.-28. apríl, taka upp fleiri viðtöl og markþjálfa þess á milli.

Hvað skiptir þig mestu máli?

Tengsl við allt yndislega fólkið mitt og bara að njóta mín og þessarar tilveru. Lýsa mínu ljósi – mér og öðrum til handa. Spurningar: Helga Kristjánsdóttir, fyrir Vikuna.

1 comment

1 comentário


armignw557
29 de abr. de 2023

Brewers Little League Roundup 7 days #25 - Brew Workforce Ball

Every 7 days, Il be bringing on your own a roundup of the Brewers very little league affiliate marketers, which include ranking upgrades, most important avid gamers and far more. Below is the 7 days 25 roundup. Remember to notice that the AA, Substantial-A, and Reduced-A seasons contain done, consequently there is no recap for the Biloxi Shuckers, Wisconsin Timber Rattlers, or Carolina Mudcats. The Seems experienced a highly effective 4-2 7 days from the Louisville Bats (58-89), clinching the World wide League West department at 89-57 with 3 video games still left within just the regular monthly time. Infielder Cam Devanney led the course, slashing with a homer…


Curtir
bottom of page