Taugavísindum hefur fleygt fram á síðustu árum og mikil framþróun hefur átt sér stað á sviðið taugasálfræði og margar spennandi rannsóknir eru að umbreyta því hvernig við horfum á hegðun, hugsanir og þetta magnaða verkfæri sem heilinn er.
Það er talið að um 70 þúsund hugsanir fari í gegnum heilann okkar daglega og að um 95-98% þeirra séu ósjálfráðar, neikvæðar og þær sömu og fóru í gegnum hann deginum áður. Heilinn er eins og svampur sem sogar í sig allt okkar umhverfi, uppeldi, menningu og það sem við veljum ofan í hann. Hvaða afþreyingu velur þú? Hvaða fólk velur þú í kringum þig? Allt þetta býr til þann sarp sem heilinn hefur úr að moða.
Meðal maðurinn er ekki í vitund nema að meðaltali 2-5% af vökutíma og restina af tímanum spilast ósjálfráð hugsanakerfi sem hafa verið að myndast frá því við fæddumst. Í hröðu nútímasamfélagi er mikil áhersla á heilann og hann oft á svo miklum yfirsnúningi að hann jaðrar við að vera stjórnlaus, fastur í þráhyggju, við eigum erfitt með að slökkva á honum á kvöldin eða beina honum að verkefninu sem við viljum framkvæma, bókinni sem við erum að lesa eða manneskjunni sem við erum að hlusta á.
En pæliði í því hvað þetta er stórt tækifæri? Hvað við höfum mikið til að vinna? Hvaða áhrif hefði það á líðan okkar og líf ef við myndum auka vitund / núvitund okkar uppí 10% eða jafnvel 15%? Getur verið að við hefðum meiri orku? meira að gefa? Færum að njóta meira og streða minna?
Við lifum á nýjum tímum, það er mikil vakning og ótal margt í boði fyrir þá sem vilja þjálfa vitund sína, læra að slaka á huganum, þjálfa sig í að velja viðbragð sitt og velja hvert þeir beina athygli sinni. Það eru námskeið útúm allan bæ í núvitund, allskonar tegundri af jóga, súkkulaðiseremóníur, tónheilun og ég gæti lengi talið.
Þetta eru allt frábærar leiðir en það getur verið tímafrekt að koma sér á staðinn, koma þessu inní pakkaða dagskrá og getur valdið meiri streitu þegar uppi er staðið. Þess vegna getur verið gott að byrja á einhverjum af ótalmörgum tækifærum hversdagsins til að vera í núinu. Taka nokkra af 23.000 andardráttum dagsins í vitund, finna hvernig hann fyllir þig orku. Skynja hvernig sólin yljar og súrefnið flæðir um okkur þegar við stígum út úr húsi. Næra sig og tyggja matinn sinn í vitund, finna bragðið, finna munnvatnið spretta fram. Fara í sturtu með sér, finna fyrir hlýju vatninu flæða um líkamann og síðast en ekki síst þakka fyrir þetta hreina, tæra vatn, lífsgjafa, sem við erum svo lánsöm að eiga nóg af hér á Íslandi. Því sterkasta núvitundaræfingin af þeim öllum er að iðka þakklæti, minna sig á litlu og stóru hlutina sem við getum verið þakklát fyrir, finna þakklætið flæða um allan líkamann, finna það heltaka okkur af vellíðan.
Eitt er víst að við höfum flest verið að þjálfa okkur í fjarveru allt okkar líf, það hefur verið talin ein helsta dyggðin að halda sér uppteknum, við fyllum uppí hverja lausa stund með afþreyingu og neyslu af ýmsu tagi Ef við viljum vera í meiri vitund og bæta færni okkar til að kyrra hugann og virkja í okkar hag þá þarf meðvitað að þjálfa upp vitundar "vöðvann".
Commentaires